Við viljum þakka öllum sem mættu á opinn fund Dansk-íslenska viðskiptaráðsins (DIV) og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðsins (GLIS) sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins þann 5. júní.
Fundurinn var haldinn í tilefni þjóðhátíðardaga Danmerkur og Grænlands og var mjög vel sóttur. Sendiherra Danmerkur á Íslandi, Erik Vilstrup Lorenzen, opnaði fundinn og fjallaði um góð samskipti Danmerkur og Íslands og vaxandi áhuga á þróun tengsla við Grænland.
Við fengum einnig að heyra áhugaverð og upplýsandi erindi um þróun vindorku á Íslandi og möguleika á að nýta íslenska þekkingu á Grænlandi.
Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Qair, sagði frá þróun fyrirtækisins á Íslandi og fjallaði meðal annars um verkefnið í Þykkvabæ og stöðu þess í dag.
Unnur María Þorvaldsdóttir, forstöðumaður vindorku hjá Landsvirkjun, kynnti tvö stærri vindorkuverkefni í þróun – Blöndulund og Vaðölduver – og lýsti þeim undirbúningi og rannsóknum sem standa þeim verkefnum að baki.
Að lokum ræddi Ásgeir einnig stuttlega um verkefni Amaroq á Grænlandi, þar sem hann leiðir uppbyggingu á framleiðslu endurnýjanlegrar orku.
Við þökkum sérstaklega Ásgeiri og Unni fyrir innsýn þeirra og framtíðarsýn á þessu mikilvæga sviði. Einnig þökkum við ÍSTAK kærlega fyrir ljúffeng smørrebrød frá Jómfrúnni.
Við hlökkum til áframhaldandi samtals og samstarfs um þróun vindorku og eflingu tengsla milli Íslands, Danmerkur og Grænlands.
Hægt er að sjá fleiri myndir frá viðburðinum á Facebook síðum Dansk-íslenska og Grænlensk-íslenska viðskiptaráðanna.