Fullt hús á ráðstefnu um stafræna heilbrigðisþjónustu

Fjölmennt var á ráðstefnu Sænsk-íslenska viðskiptaráðsins og Alvotech um Stafræna heilbrigðisþjónustu þann 20.mars. Markmið ráðstefnunnar var að hreyfa við framþróun stafrænnar heilbrigðisþjónustu á Íslandi með því að varpa ljósi á möguleika stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð og setja í íslenskt samhengi. Ánægjulegt var að sjá hversu fjölbreyttur hópur sótti ráðstefnuna en á meðal gesta var fólk úr heilbrigðistæknigeiranum, heilbrigðisstarfsfólk, kjörnir fulltrúar, stjórnendur opinberra heilbrigðisstofnana, fólk frá einkareknum læknastofum, fulltrúar stjórnsýslunnar, starfrænnar þróunar, persónuverndarmála og háskólanna.
Jóhann G. Jóhannsson formaður Sænsk-Íslenska viðskiptaráðsins og einn af stofnendum Alvotech opnaði og lokaði ráðstefnunni.
Í forföllum heilbrigðisráðherra, ávarpaði Jón Magnús Kristjánsson, læknir og aðstoðarmaður ráðherra, ráðstefnunna.
Björn Zoëga, læknir, Dr. Kalle Conneryd Lundgren og Johannes Schildt frá Kry og Tomas More Morrison hjá Cambio Healthcare Systems héldu erindi þar sem þeir veittu innsýn inn í það sem er að gerast í stafrænni heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð og þróun til framtíðar á þessu sviði.
Matthías Leifsson hjá Leviosa og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir hjá Kara Connect héldu erindi.
Að loknum erindum tóku Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix Health, Guðrún Ása Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Klíníkunnar, Matthías Leifsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Leviosa, Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kara Connect þátt í pallborðsumræðum. Þar voru rædd tækifæri og áskoranir sem felast í notkun stafrænna lausna í íslenskum samhengi. Í samtali þeirra kom m.a. fram að það sé tímabært að setja einhverskonar leikreglur við innleiðingu stafrænna lausna á Íslandi. Einnig var undirstrikað mikilvægi þess að mismunandi aðilar, svo sem heilbrigðisstarfsfólk, stjórnendur heilbrigðisstofnanna, hið opinbera, fyrirtæki í heilbrigðistækni og fleiri taki þátt í samtali um innleiðslu stafrænna lausna í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Eftir að formlegri dagskrá lauk gafst tækifæri til tengslamyndunar undir ljúfum jasstónum Tómasar R. Einarssonar og Daníels Helgasonar og dásemdar veiga í boði Alvotech.
Sænsk-íslenska viðskiptaráðið þakkar gestum fyrir komuna, ofangreindum aðilum fyrir sitt framlag til dagskrárinnar og Alvotech teyminu fyrir gott samstarf.
Aðrir samstarfsaðilar voru Íslandsstofa og Sænska sendiráðið á Íslandi.

Sænsk-íslenska viðskiptaráðið

Hús atvinnulífsins

Borgartúni 35, 5. hæð

105 Reykjavík

Hafa samband

bilateral@chamber.is

+354 510 7100