Dagana 11.–14. mars fór fram hin virta MIPIM ráðstefna í Palais des Festivals í Cannes, en hún er ein af stærstu og áhrifamestu ráðstefnum heims á sviði fasteigna.
Stjórn Fransk-íslenska viðskiptaráðsins, í samstarfi við Íslandsstofu, tók þátt í viðburðinum og kynnti þau fjölmörgu tækifæri sem íslenskur fasteignamarkaður hefur upp á að bjóða. Ráðstefnugestir sýndu mikinn áhuga á Íslandi sem fjárfestingarkosti á þessu sviði. Jafnframt var undirritaður rammasamningur um samstarf milli Sophia Antipolis og Vísindagarða Háskóla Íslands.
Íslandsstofa var með glæsilegan sýningarbás þar sem fjölmörg íslensk fyrirtæki kynntu starfsemi sína, verkefni og sérfræðiþekkingu. Auk þess kynnti Íslandsstofa hlutverk sitt, markmið og framtíðarsýn. Ráðstefnan var opnuð af Mario Draghi.
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi, var einnig viðstödd og veitti viðtal við tímaritið Immoweek.
Þátttakendur í íslensku sendinefndinni nutu jafnframt gestrisni Sophia Antipolis vísindagarðsins í Nice, þar sem þeim var veitt yfirgripsmikil kynning á starfsemi garðsins. Sérstakir gestafyrirlestrar voru haldnir af stjórnendum Nice Aéroport, auk þess sem hópurinn heimsótti VEV – nýsköpunarfyrirtæki sem hefur á skömmum tíma skapað sér sterka stöðu í þróun og rekstri hleðslustöðva fyrir rafbíla.
Hægt er að sjá fleiri myndir frá ráðstefnunni á Facebook síðu FRÍS með því að smella hér.