Styrkur úr ferðasjóði Japansk-íslenska viðskiptaráðsins:
Upplifðu Japan með leyfi til vinnudvalar (working holiday visa).
Dreymir þig um að upplifa blómstrandi kirsuberjatré í Kyoto eða ys og þys í Tokyo?
Láttu drauminn rætast með vinnudvöl í Japan.
Einstakt tækifæri til að upplifa djúpstæða menningu, töfrandi land og iðandi mannmergðina í japönskum borgum á sama tíma og hægt er að vinna fyrir sér. Fjölbreyttir möguleikar í boði - allt frá enskukennslu, almennum þjónustustörfum til ferðaþjónustu.
Japan býður upp á skemmtilega blöndu af hefðum og nýjungum þar sem hægt er að gæða sér á framandi mat, dýfa sér í heitar uppsprettur, skíða í púðursnjó eða skoða stórfengleg forn hof. Vinnudvöl veitir frelsi til að kynnast Japan á eigin hraða og upplifa landið eins og heimamanneskja.
Ævintýrið er rétt handan við hornið. Byrjaðu ferðalagið núna með því að sækja um leyfi fyrir vinnudvöl (working holiday visa) hjá Japanska Sendiráðinu og stuðning úr ferðasjóði Japanska-íslenska viðskiptaráðsins til að skapa ómetanlegar minningar í landi hinnar rísandi sólar.
Reglur um styrk:
Í tengslum við samkomulag utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Japans um vinnudvöl ungs fólks í Japan og á Íslandi var stofnaður ferðasjóður til þess að gefa ungu fólki (á aldrinum 18-26 ára) kleift að dvelja í landi hvors annars í þeim tilgangi að kynnast landinu, atvinnulífi og menningu þess, til afmarkaðs tíma.
Með samkomulaginu geta ungir Íslendingar sem hyggja á afmarkaða dvöl í Japan allt að einu ári án frekari leyfisveitinga tekið þátt í launuðum störfum á meðan dvölinni í Japan stendur. Efni samkomulagsins kveður á um að einstaklingar geti í lengri orlofsdvölum starfað í Japan á vettvangi sem ekki er í bága við japönsk lög og reglugerðir, þannig að þeir geti orðið sér tímabundið úti um skotsilfur. Umræddar heimildir til vinnudvalar í Japan henta hvorki þeim sem ætla að ráða sig í fullt starf né þeim sem hafa hug á að stunda nám í Japan.
Ferðasjóðurinn veitir styrki til ungs fólks sem nýtir sér samkomulagið vegna ferðakostnaðar þ.e. flugfargjalda samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins.
Leyfi til vinnudvalar í Japan til eins árs frá útgáfudegi, verða gefin út til einstaklinga sem uppfylla neðangreind skilyrði (sem útlistuð eru á heimasíðu Sendiráðs Japan á Íslandi):
Íslenskir ríkisborgarar sem hafa áhuga á að sækja um vinnudvalarleyfi í Japan hjá japanska Sendiráðinu á grundvelli samningsins þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Íslenskur ríkisborgari með heimilisfesti á Íslandi.
- Stefna fyrst og fremst á að dvelja í Japan í afþreyingarskyni, og að hámarki til eins árs.
- Vera milli 18 og 26 ára þegar umsókn er lögð inn.
- Vera á eigin vegum, þ.e. án nokkurs sem er háður umsækjanda, nema sá hinn sami hafi jafnframt samskonar dvalarleyfi.
- Hafa gilt vegabréf og farseðil fram og til baka, ellegar nægilega fjármuni til að festa kaup á slíkum farseðli; hafa yfir nægum fjármunum að ráða til að framfleyta sér á meðan upphaflegu dvölinni stendur.
- Ætla sér að yfirgefa Japan í lok dvalar.
- Hafa ekki áður fengið dvalarleyfi til vinnudvalar útgefið.
- Vera við góða heilsu og með hreint sakavottorð.
- Vera sjúkratryggð.
Eftirfarandi gögn eiga að fylgja umsóknum um styrk til vinnudvalar:
- Afrit af gildu vegabréfi.
- Ljósmynd sem er innan við 6 mánaða gömul.
- Umsóknareyðublað útfyllt á ensku.
- Ferilskrá á ensku.
- Stutt lýsing á ensku (1 bls.) þar sem umsækjandi færir rök fyrir ástæðum umsóknar, lýsir fyrirhugaðri dvöl í Japan og helstu fyrirætlunum. Einnig þarf að tilgreina lengd dvalar.
- Við úrvinnslu umsókna áskilur Japansk-íslenska viðskiptaráðið sér rétt til að kalla eftir viðbótar gögnum eða boða umsækjanda í viðtal eftir aðstæðum.
Styrkjum úr ferðasjóði Japansk-íslenska viðskiptaráðsins í tengslum við leyfi til vinnudvalar verður úthlutað til allt að sex aðila (með fyrirvara um breytingu). Þegar því takmarki hefur verið náð verður lokað fyrir umsóknir.
Senda skal umsóknir um styrk úr ferðasjóði Japansk-íslenska viðskiptaráðsins til Stellu Stefánsdóttur á netfangið stella@chamber.is.
Umsóknarfrestur er til 1. júní 2024.
Nánari upplýsingar um working visa eru á heimasíð japanska sendiráðsins. https://www.is.emb-japan.go.jp/itpr_en/working_h.html
Leyfið er umsækjendum að kostnaðarlausu.