Kampavínsfjelagið og Japansk-íslenska viðskiptaráðið kynna í samstarfi við Fiskmarkaðinn fyrstu sake-hátíðina á Íslandi:
Japanskt hrísgrjónavín nýtur sífellt meiri vinsælda um heiminn. Fram til þessa hefur lítið sem ekkert fengist af þessari merku framleiðslu hér á landi en nú hefur orðið þar breyting á svo um munar. Á Fiskmarkaðnum er nú hægt að komast í sake frá nokkrum af fremstu framleiðendum Japans en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera fastagestir á vínseðlum veitinghúsa í Evrópu og Bandaríkjunum sem bjóða upp á stórkostlegar matarparanir við japanskt sake.
Gestur hátíðarinnar verður Rei Suzuki, japanskur víngerðarmaður sem haslað hefur sér völl í evrópskri víngerð á síðustu árum. Hann starfar í Þýskalandi fyrir hina fornfrægu víngerð Koehler-Ruprecht í Kallstadt. Samhliða þeim störfum hefur hann kynnt og aukið hróður japanskrar vínmenningar í Þýskalandi.
Yfir sjö rétta kvöldverði mun hann kynna til sögunnar sjö ólík sake sem hafa verið sérvalin til þess að parast frábærlega með fersku hráefni og óviðjafnanlegri matargerð Hrefnu Sætran og hennar fólks á Fiskmarkaðnum en staðurinn hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem helsti merkisberi japanskrar matarmenningar hér á landi.
Viðburðurinn fer fram 10. maí og hefst dagskráin á þriðju hæð Fiskmarkaðarins kl. 18:15 (Uppi bar) þar sem verður dreypt á dýrindis kampavíni frá Philipponnat. Að fordrykk loknum, kl. 19:00, verður sest að borðum á Fiskmarkaðnum hvar hvert stórkostlegt sake-vínið leiðir annað og rennur saman við ostrur, sushi og annað góðgæti úr eldhúsi staðarins.
Verð: 35.000 kr. á mann.
Í boði eru 4, 6 og 8 manna borð. Borðapantanir: styrmir@fiskmarkadurinn.is