Kanadísk-íslenska viðskiptaráðið stofnað

Í gær fór fram stofnfundur Kanadísk-íslenska viðskiptaráðsins, sem hefur það að markmiði að efla og viðhalda viðskiptatengsl milli Íslands og Kanada. Auk þess mun ráðið stuðla að nánari samvinnu á sviðum menntunar, menningar og viðskipta.

Fundurinn, sem var opinn öllum áhugasömum, vakti mikla athygli og mættu tæplega 50 manns til að fylgjast með stofnun ráðsins. Ljóst er að umtalsverður áhugi er á að dýpka tengslin milli landanna tveggja.

Skipan stjórnar
Á fundinum fór fram kosning stjórnar, sem mun leiða starf ráðsins á komandi árum.

  • Formaður: Guðmundur Óskarsson, Kerecis
  • Stjórnarmeðlimir:
    • Anne-Marie Tremblay Quenneville, Icelandair
    • Eliza Reid
    • Hilmar Guðmundsson, Slippurinn
    • Jóhannes Gíslason, Geo Salmo
    • Kristjana M. Kristjánsdóttir, Carbon Recycling International
    • Rúnar Jónsson, Arion banki
    • Sigga Dögg Guðmundsdóttir, Business Iceland
    • Sæmundur K. Finnbogason

Sérstakir gestir fundarins
Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada og einn af lykilmönnunum í stofnun ráðsins, opnaði fundinn með erindi um viðskiptasamband Íslands og Kanada og framtíðartækifæri á því sviði. Hann tók dæmi um hvernig markviss vinna við að tengja íslensk fyrirtæki við kaupendur í Kanada skilaði sér í margföldun á útflutningi íslenskra sjávarafurða. Með skipulagningu sértækra viðskiptakynninga í Kanada tókst á aðeins nokkrum árum að auka útflutning á sjávarafurðum frá 2.500 tonnum upp í 20.000 tonn, sem sýnir þau miklu tækifæri sem eru til staðar fyrir íslensk fyrirtæki á kanadíska markaðnum.

Jenny Hill, sendiherra Kanada á Íslandi, ávarpaði einnig gesti að stofnfundinum loknum og lagði áherslu á fjölmörg tækifæri sem liggja í auknum viðskiptatengslum milli landanna. Hún undirstrikaði einnig að Kanada líti á Ísland sem náið vina- og samstarfsríki, enda búa í Kanada um 200.000 manns af íslenskum uppruna.

Hlutverk ráðsins
Kanadísk-íslenska viðskiptaráðið mun vinna að markmiðum sínum með því að skipuleggja fundi og ráðstefnur um sameiginleg málefni Íslands og Kanada, skipuleggja viðskiptaheimsóknir og sendinefndir milli landanna og gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum í báðum löndum.

Viðskiptasamband Íslands og Kanada
Fríverslunarsamningur milli EFTA og Kanada hefur verið í gildi frá árinu 2009. Árið 2023 nam útflutningur vöru og þjónustu frá Íslandi til Kanada 45,2 milljörðum króna, þar sem ferðaþjónusta og farþegaflutningar vógu þyngst ásamt útflutningi á ferskum og frystum fiski, fiskmeti og eldisfiski. Innflutningur frá Kanada til Íslands nam á sama ári 15,6 milljörðum króna.

Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi
Kanadísk-íslenska viðskiptaráðið verður það sextánda í röð alþjóðlegra viðskiptaráða sem starfa undir hatti Millilandaráðanna. Ráðið hefur metnaðarfull áform um að byggja upp öflugt tengslanet íslenskra og kanadískra fyrirtækja og styðja við vöxt og framgang íslenskra fyrirtækja á kanadískum markaði – og öfugt.

Við hlökkum til samstarfs við aðildarfélögin og að vinna saman að því að styrkja viðskiptatengsl Íslands og Kanada enn frekar.

Hægt er að skoða fleiri myndir frá fundinum á facebook síðu ráðsins með því að smella hér: 

Millilandaráðin

Millilandaráðin & The Bilateral Chambers

Húsi atvinnulífsins

Borgartúni 35

105 Reykjavík

Hafa samband / Contact

bilateral@chamber.is

+354 510 7100