Morgunfundur um stjórn- og efnahagsmál á Ítalíu

Miklar breytingar urðu í ítölskum stjórnmálum í síðustu þingkosningum sem fram fóru þann 25. september.  Á sama tíma eru Ítalir, eins og aðrar Evrópuþjóðir, að takast á við efnahagslegar afleiðingar COVID-faraldursins, gríðarlega verðbólgu og hækkandi orkuverð.

Ný ríkisstjórn er í burðarliðnum, þar sem Giorgia Meloni, formaður Fratelli d‘Italia, er í fararbroddi. Giorgia á langan pólitískan feril að baki, þrátt fyrir að vera einungis á miðjum fimmtugsaldri. Mikill óstöðugleiki hefur einkennt ítölsk stjórn- og efnahagsmál um árabil og eru talsverðar efasemdir um að hægristjórn Meloni muni ná að koma nokkru jafnvægi á í þeim efnum. Stefna flokks hennar, Fratelli d‘Italia, eða Bræðralags Ítalíu, á fasískar rætur og hefur vakið ugg, innan sem utan Ítalíu. Meðal stefnumála Meloni fyrir kosningar voru lokun landamæra fyrir innflytjendum og að sporna við því sem hún kallaði „lobbíisma“ hinsegin fólks á kostnað hefðbundinna fjölskyldugilda. Meloni er efasemdamanneskja í Evrópusambandsmálum, vill þó ekki yfirgefa evrusvæðið en hyggst endursemja við ESB um stuðning og lækka skatta.

Eru niðurstöður síðustu kosninga merki um breytingar hjá ítölsku þjóðinni? Eru þessar breytingar áhyggjuefni? Hvernig má túlka þær og hver verða næstu skref ríkisstjórnarinnar? Á fundinum reynum við að skyggnast inn í framtíðina og velta fyrir okkur hvernig stjórn- og efnahagsmál á Ítalíu munu þróast undir forystu Giorgiu Meloni.

Guðmundur Árnason er ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hann er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Stirling-háskólanum í Skotlandi og MA-próf í alþjóðastjórnmálum frá háskólanum í Sussex í Englandi. Guðmundur er mikill áhugamaður um ítalska pólitík og efnahagsmál og á sá áhugi rót sína að rekja til skiptináms á Ítalíu á menntaskólaárum, auk þess sem hann vann á sumrin með háskólanámi sem leiðsögumaður á Ítalíu. Guðmundur hefur æ síðan haldið tengslum við landið og fylgist vel með stöðu og horfum í ítölskum þjóðmálum.

Roberto Luigi Pagani er íslensku- og miðaldafræðingur að menntun sem hefur kennt við HÍ og starfað í ýmsum verkefnum m.a. hjá Árnastofnun. Hann hefur þýtt nokkrar fornsögur á ítölsku og gaf nýlega út bók um íslenska sögu og menningu á Ítalíu. Hann birtist oft í ítölskum fjölmiðlum til að tala um Ísland og stýrir vinsælu bloggi um landið fyrir ítalska lesendur, “Un italiano in Islanda” (Ítali á Íslandi).

Millilandaráðin

Millilandaráðin & The Bilateral Chambers

Húsi atvinnulífsins

Borgartúni 35

105 Reykjavík

Hafa samband / Contact

bilateral@chamber.is

+354 510 7100