Icelandic Economy 4F 2022

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan er á ensku og fjallar um íslenskt efnahagslíf í víðu samhengi.

Í nýútgefinni skýrslu Viðskiptaráðs er fjallað um hagþróun síðustu mánaða, skammtímahagvísa, þróun í utanríkisviðskiptum, samanburð á raforkuverði á Íslandi og í Evrópu og samsetningu hagkerfisins og stofnanaumgjörð, svo eitthvað sé nefnt.

Íslenska hagkerfið hefur að miklu leyti tekið við sér eftir skamman en skarpan samdrátt árið 2020. Áætlað er að hagvöxtur verði nærri 6% árið 2022 sem má m.a. rekja til viðsnúnings í ferðaþjónustu og samfara kröftugri einkaneyslu. Þrátt fyrir myndarlega aukningu í útflutningi, sem að hluta er tilkomin vegna metútflutningsverðmætis eldisfisks, var viðskiptajöfnuður neikvæður á öðrum ársfjórðungi 2022. Erlend staða þjóðarbúsins er þó enn sterk og mældist jákvæð um 24% af vergri landsframleiðslu undir lok annars ársjórðungs 2022.

Verðbólga á mælikvarða VNV dróst saman annan mánuðinn í röð og mældist 9,3% í september. Lægri verðbólgu má að hluta rekja til kólnandi húsnæðismarkaðar en undanfarið ár hefur stór hluti verðbólgunnar verið drifinn áfram af hækkandi fasteignaverði. Þróun verðbólgunnar að undanförnu gefur til kynna að aðgerðir Seðlabanka Íslands séu loks farnar að bíta. Hins vegar má vænta þess að verðbólga náist ekki niður í markmið Seðlabankans í bráð.

Fyrsti fasi í endurflokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins upp í flokk nýmarkaðsríkja átti sér stað þann 19. september 2022 og var velta í Kauphöllinni tæplega 14 milljarðar á aðeins hálfri mínútu í lokunaruppboði daginn fyrir uppfærsluna. Áætla má að uppfærsla FTSE Russel á íslenska markaðnum hafi í för með sér aukin tækifæri skráðra íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar og veki einnig áhuga erlendra fjárfesta.

Fjármálakerfið óx verulega á síðasta ári, bæði að stærð en einnig sem hlutfall af landsframleiðslu. Bankar og lífeyrissjóðir eiga stærstan hluta eigna í fjármálakerfinu og fara þeir síðarnefndu með 43% af heildareignum. Takmörkuð og minnkandi vanskil heimila og fyrirtækja gefa til kynna að staðan í hag- og fjármálakerfinu sé góð. Þar að auki hefur hlutfalli lána hjá bönkunum sem eru með ívilnanir og í greiðsluhléum farið lækkandi að undanförnu.

Íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum og fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að upplýsingagjöf til erlendra aðila sé öflug. Skýrslan er því send til fyrirtækja, alþjóðastofnana, opinberra aðila og viðskiptaráða víðs vegar um heiminn.

Viðskiptaráð býður upp á kynningar á skýrslunni. Nánari upplýsingar veita hagfræðingar ráðsins, Elísa Arna Hilmarsdóttir (elisa@vi.is) og Gunnar Úlfarsson (gunnaru@vi.is).