Ferðasjóður til vinnudvalar í Japan og á Íslandi (Working holiday visa)

Í tengslum við samkomulag utanríkisráðherra Íslands og utanríkisráðherra Japans um vinnudvöl ungs fólks í Japan og á Íslandi var stofnaður ferðasjóður til þess að gefa ungu fólki (á aldrinum 18-26 ára) kleift að dvelja í landi hvors annars í þeim tilgangi að kynnast landinu, atvinnulífi og menningu þess, til afmarkaðs tíma. Með samkomulaginu geta ungir Íslendingar sem hyggja á afmarkaða dvöl í Japan allt að einu ári án frekari leyfisveitinga unnið á meðan dvölinni í Japan stendur. Efni samkomulagsins kveður á um að einstaklingar geti t.a.m. í lengri orlofsdvölum unnið í Japan á vettvangi sem ekki er í bága við japönsk lög og reglugerðir, þannig að þeir geti orðið sér tímabundið úti um skotsilfur og kynnst japönsku atvinnulífi af eigin raun. Umræddar heimildir til vinnudvalar í Japan henta hvorki þeim sem ætla að ráða sig í fullt starf né þeim sem hafa hug á að stunda nám í Japan.

Til að hljóta stuðning ferðasjóðsins þurfa umsækjendur að uppfylla þrjú skilyrði úthlutunarreglna sjóðsins

  • Hafa fengið útgefið working holiday visa
  • Hafa fengið vinnu
  • Skila inn afriti af lýsingu á áformum sínum um dvölina í Japan/á Íslandi

Að framangreindum skilyrðum uppfylltum geta áhugasamir sótt um til sjóðsins styrk vegna ferðakostnaðar að fjárhæð 150.000 kr. Enda skili umsækjendur inn afriti af reikningi fyrir fargjöldum.

Skilyrði sem liggja til grundvallar útgáfu Working Holiday Visa eru útlistuð á vefsíðu sendiráðs Japans á Íslandi.

Þess má geta að Össur, Toyota, Icelandic Japan, Hampiðjan, Hvalur, Viking Travel, Global Vision og Takanawa hafa greitt í ferðasjóðinn

Japansk-íslenska viðskiptaráðið

Hús atvinnulífsins

Borgartúni 35, 5. hæð

105 Reykjavík

Hafa samband

bilateral@chamber.is

+354 510 7100