Stofnfundur Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins

Rússnesk-íslenskt viðskiptaráð tekur formlega til starfa í dag, 1. nóvember kl. 13:00 en það er fjórtánda alþjóðlega viðskiptaráðið sem starfar með heimilisfesti hjá Viðskiptaráði Íslands. Stofnfundur ráðsins fer fram í Sendiráði Rússlands á Íslandi.

Markmið Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins er að efla og styrkja góð tengsl landanna á sviðum viðskipta, stjórnmála, menntunar og menningar. Utanríkisráðherra Íslands, Guðlaugur Þór Þórðarson, og sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton V. Vasiliev, koma saman í dag ásamt stjórn og stofnendum ráðsins til að leggja áherslu á mikilvægi samskipta landanna. Fyrsti viðburður hins nýstofnaða Rússnesk-íslenska viðskiptaráðs verður í Moskvu þann 26. nóvember nk. þar sem íslensk fyrirtæki verða kynnt, en sá viðburður verður hluti af dagskrá viðskiptasendinefndar sem utanríkisráðherra mun leiða í tengslum við opinbera heimsókn sína til Moskvu í lok þessa mánaðar.

Stofnfélagar eru rúmlega fjörtíu fyrirtæki sem starfa m.a. innan sjávarútvegs og sjávarútvegstækni, matvælaframleiðslu, nýsköpun og ferðaþjónustu. Er þar bæði um að ræða fyrirtæki með langa viðskiptasögu í Rússlandi og fyrirtæki sem nú eru að hasla sér völl á þessum stóra markaði.

Undirbúningshópur skipaður þeim Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra Íslands í Rússlandi, Ara Edwald, forstjóra MS, Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, og Tanyu Zharov lögfræðingi hefur starfað að stofnun ráðsins frá áramótum, auk Sigrúnar Lilju Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra allra alþjóðlegu viðskiptaráðanna.